Ástarbréf frá Guði til þín
- Sólveig Katrín Jónsdóttir

- Jun 3, 2025
- 2 min read
Elsku barnið mitt
Þú ert undursamlega skapaður og ég óf þig í móðurlífi (Sálmur 139.14) Ég þekki þig og kalla á þig með nafni (Jesaja 43.1). Ég myndaði þig í móðurkviði (Jeremía 1.5), áður en þú dróst þinn fyrsta andardrátt, elskaði ég þig. Þú ert dýrmæt(ur) í augum mínum, kærleikur minn er takmarkalaus (Jesaja 43.4).
Ég skapaði himin og jörð, og þig í minni mynd og ég ákvað að nálgast þig og mæta þér í gegnum son minn Jesú Krist sem bjó meðal ykkar, til að frelsa þig og leysa frá syndum. (Jóh 3.16)
Ég sendi þér heilagan anda, huggarann og hjálparann til að búa í hjarta þínu, (Jóh 14.16). Ég er alltaf hjá þér og fer aldrei frá þér.
Ég þekki þig og veit þegar þú sest og þegar þú stendur upp, ég skil hugsanir þínar langt áður en þú hugsar þær sjálf(ur) og alla vegu þína gjörþekki ég. (Sálmur 139).
Það fellur ekki hár af höfði þínu til jarðar án þess að ég viti (Lúk 12.7), og ekki eitt tár rennur án þess að ég geymi það (Sálmur 56.8).
Já, þegar styrkur þinn dvínar, mun styrkur minn halda þér uppi. (Filip.4.13) Þegar þú finnur fyrir einsemd, er ég nær en andardrátturinn.
Ég gleymi þér ekki – þú ert rituð(ur) í lófa minn (Jesaja 49.16).
Ég elskaði þig svo mikið að ég gaf einkason minn, til þess að þú skyldir aldrei glatast heldur hafa eilíft líf (Jóh 3.16). Þegar þú gengur í gegnum storma lífsins, mun ég vera með þér (Jesaja 43.2). Þegar þú hræðist, segi ég: „Óttastu ekki, því ég er með þér“ (Jesaja 41.10).
Kærleikur minn er langlyndur, hann fellur aldrei úr gildi (1Kor13.4). Hann nær yfir hverja synd, læknar hvert sár, og leiðir þig á friðarvegum, jafnvel þegar þú gengur í gegnum dimman dal.
Ég leiði þig að vötnum þar sem þú mátt næðis njóta. Ég hressi sál þína og leiði þig um rétta vegu (Sálmur 23).
Ég hef fyrirætlanir fyrir þig –að veita þér vonaríka framtíð (Jer 29.11). Enginn getur gert þig viðskila frá kærleika mínum: hvorki dauði né líf, tignir né kraftar, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna (Róm 8.38–39).
Komdu, og finndu frið hjá mér því ég mun aldrei yfirgefa þig né gleyma þér (Hebr13.5).
Jafnvel þótt hinn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi þinn innri maður. Þrengin þín er skammvinn og horfðu á hið ósýnilega. Því hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft. (2Kor.16-18)
Þú ert elskuð(ur) – nú og um eilífð.
Gæfa og náð fylgja þér alla ævidaga þína og í húsi Drottins býrð þú langa ævi (sálmur 23)
Þinn kærleiksríki faðir
Amen









Comments