top of page

Kristur í oss

  • Writer: Sólveig Katrín Jónsdóttir
    Sólveig Katrín Jónsdóttir
  • Dec 26, 2025
  • 8 min read

Jóladaginn.

eftir Björn Magnússon 1965


Hugleiðing eftir afa minn Björn Magnússon, fyrrum prest á Borg á Mýrum og síðar prófessor í guðfræði við HÍ, sem er tekin úr bók hans,, Frá haustnóttum til hásumars” (1965)


Textinn er tekin úr kaflanum, Kristur í oss, yfirlit er yfir innganginn en orðréttar eru blaðsíður 82-87 (ath. þérun er tekin út og Biblíuþýðing 2007 sett í stað í ritningarformála, í stað þýðingar frá 1916 sem er í bókinni)



 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. En nú í lok þessara daga hefur hann til okkar talað í syni sínum sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gert. Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði okkur af syndum okkar og settist til hægri handar hátigninni á hæðum. Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir. Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Þú ert sonur minn,í dag hef ég fætt þig? (Hebr. 1, 1–5).


Í inngangi sínum eftir ritningarlesturinn dregur Björn Magnússon upp sterka mynd af vetrarmyrkrinu sem umlykur jólin. Hann bendir á að það geti virst undarlegt að halda hátíð ljóssins á myrkasta tíma ársins, þegar dagurinn er stystur og birta minnst. En einmitt þá sé myrkrið tekið að hörfa; skemmsti dagurinn er liðinn og vonin um aukna birtu þegar vöknuð. Þetta náttúrlega ferli verður að táknmynd um að myrkrið fái ekki síðasta orðið.

Hann tengir þessa reynslu við hvernig menn hafa í gegnum aldirnar markað þennan árstíma með hátíðum og ljósum. Þrátt fyrir breytilegar hefðir er kjarninn sá sami: að kveikja ljós í myrkri, efla samveru og minna á að lífið heldur áfram. Í kristnu samhengi fá þessi gömlu tákn nýja og dýpri merkingu, því jólin verða ekki aðeins minning um liðna tíð, heldur lifandi boðskapur um komu ljóssins í heim manna.

Inngangurinn er þannig eins konar sviðsetning þar sem lesandinn er leiddur frá náttúrunni, skammdeginu sjálfu, yfir í mannlífið og hefðir þess og að lokum inn í trúna, boðskapinn um ljósið sem kemur til mannanna. Þannig er hann leiddur frá ytri reynslu vetrarmyrkurs og hátíða inn í innri merkingu kaflans: Kristur sem ljós í myrkri.


(bls.82-87 beint framhald frá inngangi..)


Einnig í þessu efni er ljósið rétt líking um Jesú Krist. Hann er eining hins mikla gjafar og gjafari lífsins. Svo að aftur sé vitnað til upphafs Jóhannesar guðspjalls um orðið: Allir hlutir eru gjörðir fyrir hann. Og einnig í jólapistlinum, sem hér er skráður í upphafi þessa kafla, þar sem talað er um soninn, sem Guð hefur gjört heimana fyrir. Kristur er þátttakandi í sköpunarverki Guðs, hann birtir hinn sama kærleikskraft, sem varð upphaf allra tilveru og allrar sköpunar.

Þannig er Jesús, sem á jólunum fæddist, ljómi dýrðar Guðs og ímynd veru hans. Í veru hans birtist hið guðlega eðli hreint og tært á jörðu.


Dýrð Guðs táknar veru hans sem hins heilaga og hreina, og er henni lýst í helgum ritum sem óumræðilegum ljósbjarmi, svo sterkum, að ekkert mannlegt auga fær þolað skynjun þess. Þó kom fyrir, að spámönnum Ísraels var gefið að skynja nokkurn forsmekk hennar, og skal hér sem dæmi nefnd vitrun Esekíels, er sagt er frá í fyrsta kafla spádómsbókar hans. Hann sér mynd í mannsmynd, eins og hann orðar það, og lýsir henni svo:

„Sú mynd þótti mér líkast því sem glóandi lýsigull væri, þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera, og upp eftir. En ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir, þótti mér hún álits sem eldur, og umhverfis hana var bjarmi. .Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýinu stendur, þegar rignir. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta.“


Takið eftir, að spámaðurinn segir: ímynd dýrðar Drottins. Sjálfa dýrð Drottins fékk hann ekki augum litið, heldur einungis ímynd hennar. Það var líka almenn trú Ísraelsmanna, að Guð sjálfan fengi enginn augum litið og lífi haldið. Því segir í fyrra Tímóteusarbréfi, að Guð búi í ljósi, sem enginn fær til komist, og að hann hafi enginn maður lítið né litið geti.

Og enn skal vitnað til formála Jóhannesarguðspjalls, sem endar á orðunum:

„Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eingetni, sem er við brjóst föðurins, hefur veitt oss þekking á honum.“


Þannig er Kristur ljómi dýrðar Guðs og ímynd veru hans. Hann er sjálfur ljósið, hinn óumræðilegi bjarmi guðlegs dýrðarljóma, sem skinið hefur inn í myrka veröld og veitt henni skynjun æðri heima og æðri verundar, í raun og veru breytt myrkrinu í ljós, lýst upp alla veröldu, svo að eftir komu hans verður aldrei jafndimmt í heimi og áður en hann fæddist. Þannig er hann jólaljósið, sem öll vor litlu jólaljós, svo óumræðilega dauf í samanburði við dýrðarljóma hans, eiga að tákna og minna á. Hann er hin hækkandi sól mannkynsins, sólin, sem sigrað hefur myrkrið í mannshugunum, svo að það mun aldrei aftur ná undirtökunum né verða birtunni yfirsterkara, hversu sem okkur kann að virðast myrkrið enn ríkt manna á milli, og skammt á veg komið því fagnaðarári, sem ná skal hámarki sínu í nóttlausri heiðríkju hásumardagsins, þegar öllu böli, allri mannvonsku og allri vanþekking er á burtu rýmt, hinum eilífa og ævarandi degi guðsríkisins. 


Hversu okkur finnst enn lítið hafa miðað í átt til eilífðardags stafar af því, að við miðum allt við okkar skammlífa jarðlífi, sem er aðeins örlítið brot eins dropa í hinu mikla hafi eilífðarinnar, og hyggjum tvö þúsund árin tæp, sem liðin eru síðan hann fæddist, langan tíma, þar sem þau eru aðeins eins og sekúndubrot hins eilífa fagnaðarárs.


Hin kristnu jól eru þannig ljósahátíð í dýpri og sannari skilningi en hin heiðnu jól voru nokkurn tíma. Því að hið jarðneska ljós, sem lýsir vora jörð, ljós hinnar efnislegu sólar, og allt það ljós, sem við tendrum, hvort heldur er á brennandi kerti eða glóandi rafljós, er hverfult og raunar ekki annað en bylgjuhreyfing, sem augu okkar skynja, og vísindamenn geta ekki skorið úr um, hvort heldur eigi að telja vera í eðli sínu straum óendanlega smárra efnisagna eða bylgjur í einhverju, sem nefnt er ljósvaki, og enginn veit nánar hvað er. En eitt virðist vísindin geta fullyrt: Allur hinn efnislegi heimur er hverfull, hefur átt sér upphaf í tímanum og mun eiga sér endi. Hvað verið hafi áður og verða muni á eftir geta vísindin ekki gert neina grein fyrir.


En á máli trúarinnar heitið það eilífð, að hin sýnilega veröld sé hverful, jafnvel svipur einn, hefur ætíð verið sannfæring trúarinnar, og raunar engan veginn dapurleg staðreynd. Því að trúin hefur átt sannfæringuna um eilífan veruleika að baki hins sýnilega, hinn andlega heim, sem hin sýnilega veröld er aðeins dauft endurskin af, og að sumu leyti blekkjandi.


Hið sýnilega ljós er hverfult og það líf, sem kviknar fyrir ytri verkun hinnar efnislegu sólar og ljóss hennar, er endanlegt og á fyrir sér hnignun og dauða. Það slokknar eins og ljósin, sem við kveikjum á jólunum, og dauðinn tekur við, bleikur og kaldur, eins og haust og nýtt skammdegi tekur við af því sumri, sem heiðnir forfeður okkar sáu fyrirheit um, er daginn tók aftur að lengja, og fögnuðu með jólahaldi sínu. En hið eilífa ljós, sem Jesús birti í lífi sínu og gaf fyrirheit um í fæðingu sinn, mun aldrei slokkna, og lífið eilífa, sem hann gefur mönnunum hlutdeild í, er ekki undirorpið neinni hnignun né dauða, heldur ævarandi. Gleði okkar yfir sigri ljóssins verður því enn dýpri og innilegri en gleði hinna heiðnu manna gat nokkurn tíma orðið, því að við gleðjumst ekki einungis yfir því, sem á sér stuttan aldur, heldur yfir því, sem aldrei þrýtur og ekki bregst.


En eru þetta ekki aðeins fögur orð og innantóm, fullyrðingar, sem ekki fá staðist? Þannig kann margur að spyrja, og vitna til þess, hversu myrkrið er enn miki í mannheiminum, hversu langt við erum enn frá því að hafa innleitt guðsríkið á meðal okkar, hversu erfiðlega okkur gengur að skipa svo málum okkar, að öllum sé fyrir bestu. 

Við þessu er það fyrst og segja, sem bent var á hér að framan, að enn er ekki einu sinni runnin hin fyrsta morgunskíma guðsríkisins, þótt senn séu tvær árþúsundir liðnar frá fæðingu Krists. Í allri þróunarsögu mannkynsins er sá tími þar að auki eins og andartak, því að vafalaust á mannkynið milljóna ára þróunarsögu að baki. Í raun og sannleika má menn furða, hve mjög hefur þokast í mánnúðarátt á þessum tíma, og það vafalaust fyrir áhrif kristindómsins. 


En í annan stað, og það er enn mikilvægara, þá er ekki fyrst og fremst um það að ræða, hverju við komum til leiðar með viðleitni okkar, heldur hitt, hversu Guð leiðir vilja sinn til sigurs. Ekki með því að gera úr mönnunum viljalausar vélbrúður, er framkvæma vélrænt það, sem þær eru ákvarðaðar til, og getur ekki skjátlast, heldur með því að kenna þeim að þroskast sem frjálsir, sjálfstæðir persónuleikar, er hver hefur sinn sérstaka vilja og valfrelsi innan ákveðinna takmarka. 


Á þá lund lærist manninum smátt og smátt af eigin reynslu og undir handleiðslu Guðs að samlaga sig hinum algóða vilja hans, leiða réttlætið til sigurs í samfélagi sínu á vegum kærleiks og samúðar, án þvingunar, fyrir innri skilning á því, að einstaklingurinn verður aldrei sæll, nema í samfélagi annarra, því samfélagi, þar sem allra heill ræður, en ekki ofbeldi né sérgæska. Það er ekki við sjálf, sem með einu eða öðru leiða inn guðsríkið meðal okkar, heldur andi Guðs, kærleiksandinn, og það í þeim mæli, sem við ljáum honum rúm í hugum okkar, gefum honum færi á að nota okkur sem farvegi kraftar síns mannkyni og einstaklingnum til blessunar. Í þeim skilningi er hægt að segja, að við séum okkar eigin gæfu smiðir og í þeim skilningi einum erum við það.


Þess vegna er líka hin innri, sanna jólagleði margra manna takmörkuð, og þess vegna leita menn lika margs konar ytri og ósannrar gleði um jólin, til að fylla upp í tómleikann inni fyrir. Það er enn satt, sem segir í jólaguðspjallinu, að ljósið skín í myrkrinu, en myrkrið hefur ekki tekið á móti því. Hið sanna tilefni jólanna kemst ekki innn að hjartarótunum, snertir ekki nógu næmt innstu strengi sálarlífsins. Því verður jólagleði manna yfirborðsleg og köld, óhrein og öfgakennd. Boðskapur jólaguðspjallsins: Yður er í dag frelsari fæddur, er ekki meðtekinn sem persónuleg skilaboð til þín, sem þetta lest: einnig þér er á jólunum frelsari fæddur.


Því að það er hið dásamlega við jólin, að þau eru ávallt ný. Þau eru ekki aðeins minning um löngu liðna atburði í fjarlægu landi, heldur nálægur nútíðar veruleiki. Þegar rakið hefur verið hér í undanförnu máli, hversu Jesús er ljós heimsins, hið sanna ljós lífsins og kærleikans, þá hefur ekki verið lýst því einu, sem var fyrir nær 2000 árum, heldur því, sem enn er alltaf að gerast. Jesús kom til manna og fæddist sem einn þeirra ekki aðeins þeim til blessunar, sem lifðu með honum og nutu jarðneskrar návistar hans, heldur sem eilífur frelsari manna frá þeirra eigin synd og ófullkomleika, sem gjafari ljóss og lífs, er aldrei þrýtur.


Það sýndi hann og sannaði með upprisu sinni og hét enda lærisveinum sínum því, að hann skyldi vera með þeim alla daga, allt til enda veraldarinnar. Og það sem meira er: reynsla kynslóðanna allt til þessa dags hefur sannað, að hann fór ekki með fleipur. Í anda sínum kemur hann til mannanna barna, glæðir þau nýju þreki, hugrekki og kærleika, kveikir í þeim nýtt líf, veitir þeim óumræðilega reynslu hins eilífa og óskynjanlega. 

Það er vegna þessa, sem við höldum enn þá jól. Það er af því, að Jesús fæddist á jólanótt í hjarta þínu- svo framarlega sem þú varst þá einlægur og sannur í jólagleði þinni. Þegar segir í jólapistlinum með orðum hins forna krýningarsálms, og lagt Guði í munn: ,, Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig,” þá er verið að lýsa þessari staðreynd, að Kristur fæðist daglega sem Guðssonurinn, sem hin hreina birting Guðs sjálfs, í hverju því mannsbrjósti, sem veitir honum viðtöku í trú og auðmýkt, opnar sig í fátækt anda síns fyrir lífsanda hans. Það er þetta, sem máli skiptir um það, að Guð fæðist í mannlegu holdi, ekki hitt, hversu farið var líkamlegu faðerni barnsins, sem fæddist í Betlehem.


Þannig vildi ég óska, að jólin gætu orðið ljóshátið hverjum manni, ekki aðeins hið ytra, vegna þess að daginn er aftur tekið að lengja, heldur miklu fremur hið innra, fyrir það , að við höfum meðtekið í hjörtu okkar hið innra ljós lífsins, sem vekur og nærir samlíf okkar við Guð, hina eilífu uppsprettu alls ljóss og alls lífs. Ég vildi mega stuðla að því með þessum fátæklegu orðum, sem ekki megna einu sinn að tjá nógu skýrt hvað fyrir mér vakir, að Kristur megi fæðast hið innra með þér, lesandi minn, verða þér samrunninn, eins og hluti af sjálfum þér, helgandi og hreinsandi líf þitt. Það er hin eina jólagjöf, sem að fullu hæfir hinni miklu hátíð.


Björn Magnússon, 1965




 
 
 

Comments


Um Líf í Kristi

Mig langar að leyfa þessari síðu að vera Guði til dýrðar, beina sjónum að fagnaðarboðskap Jesú. Hjálpa fólki að öðlast trú sem færir von, gleði, fegurð og kyrrð í hjarta. Megi orðin og boðskapur á þessari síðu rata í frjósaman jarðveg til vaxtar og þroska.

#lifikristi

Posts Archive

Keep Your Friends
Close & My Posts Closer.

Thanks for submitting!

  • Twitter
  • Facebook
  • Instagram

© 2023 by by Leap of Faith. Proudly created with Wix.com

bottom of page