Vitnisburður minn, leið mín til Krists
- Sólveig Katrín Jónsdóttir
- Feb 21, 2022
- 11 min read
Updated: Jun 30, 2022
Þetta er mín saga
Varðandi andlega leið frá hugmyndafræði nýrra aldar og sjamanisma til trú á Jesú Krist

Ég skrifa þetta í kærleika og von um skilning. Þetta er mér mjög hugleikið þar sem ég upplifði þessar umbreytingar í minni andlegri leið á mjög sterkan hátt sem sannfærði mig um Guð.
Það er tæpt ár síðan ég varð fyrir þessari reynslu og hef haft góðan tíma að melta og vinna úr.
Ég ætla að deila minni persónulegri upplifun sem varð til þessara sinnaskipta. Ég trúi því að Guð geti nýtt sögu mína til góðs og því er hún ekki eingöngu fyrir mig. Ég vona að hún snerti þig líka.
Ég hef alltaf trúað á Guð og fann fyrir honum og vendarhendi hans þegar ég var lítil, ég átti mína barnatrú sem er dýrmæt. Ég var næm og opin sem barn. Ég var líka mjög forvitin og í kringum unglingsárin byrjaði ég að drekka í mig allt sem varðar andleg málefni, hvort sem það var jógafræði, spíritistmi, hindúismi, búddismi eða hugleiðsla frá þeim hefðum. Í kringum tvítugt nam ég guðspeki/theosophy í tvö ár, lærði heilun, því næst sjamanisma og kláraði nám í því og var að kenna það áfram. Ég kenndi seremóníur í takt við náttúruna, gyðjutengingar, innri leið til jafnvægis, tenging við ,,móður jörð", krafta sem við ,,þurfum" að tengjast og ná í.
Nú síðast var ég að læra meira í guðspeki, var í námi í Esoterisk Psychology, las m.a. Alice Bailey, Course of Miracles og endalausar bækur og upplifanir. Fræddist um vitundarvíkkun manns, leið okkar inn í eigin Guðdóm í gegnum vígslur, lærði um meistarana og hvíta bræðralagið, þar sem Jesú var einn af þeim. Allar þessar duldu Mystery trúarbrögð fornu tímans sem eiga að innihalda leyndardómana um Guð og okkar eigin Guðsneista. Þetta er svokölluð leið uppljómunar og andlegar vakningar. Leiðin sem ég taldi að væri hin rétta sanna leið. Í um 27 ár var ég djúpt á þessari braut. Ég lifði og hrærðist í þessum andlega heimi ásamt því að vera kennari á þeirri leið. Ég kenndi sjamanisma og hélt gyðjuseremóníur, ég miðlaði visku, ég fékk sífelldar staðfestingar frá andaheiminum að ég væri á réttri braut. Ég efaðist ekki um að allt þetta væri frá Guði. Ég taldi að ég væri að vinna fyrir ljósið.
En Guð hafði aðra áætlun fyrir mig og allt féll í apríllok 2021.
Eitt kvöld í gegnum mína andlegu leið, náði sannleiksandi Guðs að komast í gegn á mínu innra ferðalagi þar sem ásetningurinn var að skoða minn eigin skugga. Það byrjaði á því að í djúpri upplifun fann ég fyrir syndinni sem ég ber ásamt öllum manneskjum, við erum öll með skugga, við erum öll syndug, ég fann það í beinum mínum, í æðum mínum. Það er enginn hreinn og óflekkaður fyrir syndinni. Við erum mannleg. Þetta var óþægileg tilfinning sem ég þurfti að sætta mig við og ég fann lika iðrun til hið heilagasta, til Guðs. Ég fékk líka sýn þar sem ég sá margar sálir að reyna að komast til Guðs en voru í hnipri fyrir utan gátt sem ég vissi að leiddi til Guðs, en ekki allir komust inn. Þá er eins og ég fái eldingu og ég upplifði mikla birtu og ég heyri talað ,, Enginn kemst til Guðs nema í gegnum soninn”. Seinna kemst ég af því að þessi orð eru beint úr heilagri ritningu sjá Biblíuna ,, Jesú segir við hann, Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema í gegnum mig.” (Jóhannesarguðspjall 14.6)
Í þessari upplifun og í djúpri eftirgjöf gagnvart eigin synd í iðrun og í gegnum tárin upplifði ég og sá í innri sýn Jesú Krist á krossinum. Ég sá hann deyja á krossinum fyrir mína synd. Ég fékk að skilja hvernig Jesú dó fyrir syndir mannana. Þjáning Krists á krossinum og í gegnum dauða hans dó hann fyrir allt mannkynið, tók á sig syndir okkar til að gera okkur hrein og beina leiðina til Guðs. Þetta var hádramatískt þar sem ég grét og grét fyrir þessum sannleika Guðs, fyrir fórnargjöf Guðs til okkar og hvernig krossinn skein og birti náð Guðs yfir mér.
Í þessari upplifun á Jesú/Guði féll allt sem ég áður trúði á. Ég fann sannleikann í þessari upplifun og seinna sá ég hvernig Biblían vitnar um allt sem ég upplifði og fann. Ég fékk trú. Ég upplifði sannleika Guðs og ég tók við náðargjöf hans á þessu augnabliki. Með því að taka við Jesú Krist tók ég við gjöf Guðs, endurlausn þar sem hann hvítþvær mig af allri synd og beinir mér til sín. Þessi fyrirgefning er fyrir okkur öll.
Engin getur tekið hana frá mér. Þetta er sú dýrmætasta gjöf sem ég hef fengið.
Eftir að hafa upplifað nálægð Guðs er enginn efi í mínu hjarta og öll önnur trúarkerfi sem ég aðhylltist féllu. Einnig mínar fyrri andlegar upplifanir og leiðbeiningar féllu eins og hús sem var byggt á sandi. Jesús Kristur er sá eini sem segist vera sannarlega Guð og guðs sonur, sá eini sem dó fyrir syndir okkar og reis upp í holdi og steig upp til himna.
Eftir þessa reynslu varð mikil umbreyting í mínu lífi þar sem ég tók við Jesú inn í mitt líf og hjarta, hið gamla sjálf deyr og ég endurfæðist til Krists. Eins og hann segir sjálfur,, Sá sem ætlar að finna líf sitt týnir því og sá sem týnir lífi sínu mín vegna finnur það.” (Matt.10.39)
Lífið með Kristi er ekki að aðhyllast einhverju trúarbragði, heldur frekar að vera í sambandi við Guð. Ég finn fyrir honum í mínu daglega lífi og bænasvör eru mörg. Allt annað féll, eins og gömul klæði og himnan fyrir augum mínum opnaðist.
Ég hafði oft áður upplifað andlegar sýnir og tengingu við andaheiminn en enginn þeirra gjörbreytti lífi mínu eins og þegar heilagur andi Guðs vitnaði um sig þetta kvöld. Heilagur andi er sannleiksandi Guðs og vitnar um hann.
Blekkingarnar féllu eins og gamall hjúpur sem ég hafði verið föst í. Ég varð fyrir djúpri hreinsun og fann líka tangarhald andaheimsins sem ég hafði opnað og eru ekki frá Guði. En í gegnum Jesú Krist er fullkomin skjöldur frá öllu sem er ekki hans, enda rekur nafns hans allt sem er ekki frá honum. Jesú sigraði bæði dauðann og hið illa og fyrir blóð hans erum við hólpinn. Allt hvarf sem ekki tilheyrir honum og það varð mikill léttir og ég fór úr ósýnilegu neti sem ég hafði verið föst í.
Með lífi í Kristi finn ég fullkominn frið, ég þarfnast einskis, ég þarf ekki að gera eitthvað til að vera betri manneskja, ég finn frið og kyrrð í sálu minni, allur kvíði og ótti er horfinn. Ég er ekki ein í minni vegferð heldur er ég leidd áfram með honum. Ég finn styrk, óendanlega styrk eins og ekkert getur haggað mér því hann ber allar mínar byrgðar, ég ber allt mitt traust til Skapara himins og jarðar, frelsara míns. Hann segir við okkur,, gefðu mér allar þínar byrgðar því mitt ok er létt og byrði mín létt,. Með trú einni saman er friður og kyrrð hjartans. Í honum lifi ég og vex sem grein frá honum. Þannig ber ég ávöxt til lífs í fullri gnægð.
Jesú býður okkur í einlægni að eiga hlutdeild í ríki hans,, Enn er himnaríki líkt kaupmanni sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu fór hann, seldi allt sem hann átti og keypti hana.” Það var kannski ekki auðvelt að skilja allt það gamla eftir en ég hafði fundið dýrmæta perlu sem er trúin, allt annað er breytingum háð. Allt annað féll.
Ég fór í innri hjúp að melta þessa reynslu, ný í trúnni og með bæn og lestri á Biblíunni ásamt því að lesa og hlusta á svipaðar upplifanir fólks. Ég fann að ég er ekki ein í að umbreytast gegnum trúna.
C.S Lewis rithöfundur sem er frægur fyrir að skrifa ævintýrin um Narníu, er þekktur trúleysingi sem fann Krist/Guð og skrifaði að ef kristni er fölsk þá skiptir það engu máli, en ef hún er sönn þá skiptir það í miklum alvarleika öllu máli. Ef orð Krists og Bibliunnar eru sönn þá varðar það líf eða dauða sálar okkar. Það varðar eilífðina. Kristur er þar sem goðsögnin og sagan mætist. Jesú gekk hér á jörð, hann var til. Saga hans er sönn, hann er ekki goðsögn eða trúarbragð.
Doreen Virtue hin fræga fyrrum englakona, með öll andlegu spilin sín kom til trúar 2017 og fékk mikinn mótbyr og gagnrýni frá sínum fylgjendum þegar hún bað alla að brenna spilin sín og bækur. Já ég man hvað mér fannst óþægilegt að heyra hana á sínum tíma og ég hélt hún hefði nú endanlega misst sig greyið. Það er ekki auðvelt að segja að eina leiðin til Guðs er í gegnum Jesú og að það eru andaheimar sem eru að leiða fólk frá Guði. Já það eru ekki mín orð en það eru orð Jesú Krists. Við höfum auðvitað frjálst val að velja hann eða hafna eða trúa þessum orðum eða ekki. Ef þú trúir því ekki dustaðu þessum orðum frá þér eins og ryk en ef þetta eru sannindi þá er þetta málefni mjög mikilvægt. En að koma í faðm Guðs er einfalt.
Já auðvitað vitum við mannlegu sálirnar ekki hvað gerist nákvæmlega þegar við deyjum frá þessu lífi, við vitum ekki allan leyndardóm Guðs en við höfum orð Guðs, við höfum vitnisburð samferðarmanna Jesú sem skrifuðu sögu hans og orð nokkrum áratugum eftir dauða hans og hvergi í heiminum hafa fundist fleiri skjöl með sögu hans sem eru skráð orðrétt hvort sem þau finnast hundruðum árum seinna eða frá þeim fyrstu sem eru skráð þá um 47 e.kr. En þannig er nýja testamentið öruggustu heimildir um sannleiksgildi þessara rita frá gamla heiminum. En um 6000 rit Nýja testamentisins hafa fundist síðustu árhundruð meðan t.d. 7 rit Platós eða 500 rit Hómers. En samt efast enginn um sannleiksgildi Hómers eða Plató.
Það eru auðvitað sögusagnir um Biblíuna í gangi í andlega heiminum að hún sé ekki sönn og hafi verið breytt og skrifuð af mönnum. Já auðvitað er hún skrifuð af mönnum það voru ekki englar guðs sem skráðu hana með eldi, heldur aðalatriðið er að Nýja testamentið er skráð af lærisveinum og samferðarmönnum Jesú sem gengu með honum og ekki einungis frá einum manni heldur frá ólíku sjónarhorni sem eykur enn á sannleiksgildi Biblíunnar. Lærisveinar sem voru skírðir af heilögum anda Guðs og orðið sem hefur staðið tímans tönn í gegnum tvö þúsund ár.
En það sem einnig er athyglisvert er að Guð er svo sannarlega lifandi Guð sem er að starfa í heiminum linnulaust og vekja og gefa blindum sýn enn í dag. Hann er að vekja fólk frá svefni, frá blekkingunni eins og svo margir vitnisburðir tala um. Fólk getur hlustað á venjulegt fólk segja frá upplifun sinni á sinnaskiptunum, á youtube er hægt að finna það undir ,,from New age to Jesus” eða hvaða trúarleið sem er til hans. Venjulegt fólk sem finnur mikla breytingu á lífi sínu og það finnur þessa miklu þörf að deila upplifun sinni. Þegar Guð hefur snert við þér þá getur þú ekki falið það. Þú vilt segja öllum heiminum frá því. Þetta hefur gerst frá upphafi, Páll postuli er örugglega meðal þeirra fyrstu, Farisei sem hataði kristna og drap þá áður en hann Jesú opnaði augu hans.
Það eru margir falskir kennarar þarna úti og aðrir sem eru grunlausir eins og ég sjálf sem hélt að ég væri að vinna til góðs og fyrir það góða afl, og trúði því eins og flestir ,, andlegir leitendur” að allar leiðir liggja til Guðs og að við eigum að vera umburðarlynd og leyfa allt. Auðvitað er margt jákvætt og einhver sannleikur í því sem ég var að gera og oft ævintýri og gleði en samt var einhver þungi yfir sem ég skil núna í dag. Guð veit að þetta var mín leið til hans, þó ég fór krókaleiðir og allt sem ég upplifði er reynsla sem Guð mun nota til góðs. En ég var allan tímann að leita að Guði og hann segir sjálfur ,, leitið og þér munið finna,",, bankið og yður mun upplokið verða." Áður en ég upplifði þessa sýn og tók trú var bæn mín Guð sýndu mér sannleikann!
Enginn manneskja er réttlát fyrir Guði, allir eru syndugir. Þú og ég. Það er ekki hægt að vera mannlegur án þess. Við öll erum breysk og eins og Jesú segir, Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.” Við getum ekki dæmt aðra, því einnig erum við sjálf fallvölt og syndug. Það er í eðli mannsins. En Jesú kom og dó fyrir syndir okkar til að beina brautina til Guðs og réttlæta okkur. Syndin leiðir til dauða. En náðargjöf Jesú er eilíft líf. En þú þarft einlæglega að iðrast synda þinna og velja hann. ,, Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð, og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú” (Róm, 3.23-24).
Jesú er mjög skýr og ákveðinn og segir skýrt að Guð vilji ekki að neinn deyji og að öllum er boðið í brúðkaupið en ekki allir velja Guð, því vegurinn er breiður sem leiðir til glötunar og en þröngur vegur sem leiðir til lífs.,, Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið, enginn kemst til föðursins nema í gegnum mig. Einnig segir hann ,,Farið og dreifið fagnaðarboðskapinn um allan heim."Allir eiga rétt á því að koma í faðm Guðs.
,, Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja!. Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið. (Esekíel 18.31-32). Hann vill að við snúum við fyrri breytni og veljum hann. Elska skaltu þú Guð föður þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.
Í gegnum Krist býður hann okkur eilíft líf, náðargjöfin er eilíft líf í honum. Það er ekkert flókið að taka við honum. Hann er með opinn faðminn fyrir þér núna, nákvæmlega eins og þú ert.
Við höfum frjálst val að velja hann. Við lifum bara þessu eina lífi. Annað er blekking andaheimsins. Jesú boðar fagnaðarefni um eilíft líf með honum. Ekki að þú þurfir að endurfæðast þúsund sinnum til að hreinsa sál þína af vondum hlutum fortíðar, heldur að þú átt eitt líf í þessum skapaða heimi og eilíft líf með honum í Guðsríki.
Ég fann nýlega dagbók frá því ég var 13 ára þá byrjaði ég að fikta í andaglasi og eftir það opnaðist blekkingar andaheimsins í mínu lífi og eftir það fékk ég upplifanir að ég hafi verið í Indlandi í fyrra lífi. Þarna sá ég sönnunina sjálf. Hvernig ég hafði opnað gáttina og fyrralífs upplifarnir og andaheimarnir flæddu inn.
Mundu að þú getur alltaf testað andaheiminn hvort andarnir/leiðbeinendurnir/englarnir koma frá Guði eða ekki.
,,Vittu til að jafnvel Satan sjálfur dulbýr sig sem ljósengill” (2 korintubréf 11.14). Enda er hann fallinn engill og þriðjungur englana sem féllu með honum.
,,Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. Af þessu getið þið þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði. en sérhver andi sem ekki játar Jesú er ekki frá Guði. Hann er andkristins andi sem þið hafið heyrt um að komi og nú þegar er hann í heiminum.
(1.Jóhannesarbréf 4.1-3).
Eitt að lokum, stuttu eftir að ég kom til Krists þá dreymdi mig draum að ég hafði fundið einstakan demantshring sem ég bar á fingri mínum. Þetta var einstakur dýrgripur sem ég hafði fundið. Ég lít svo kringum mig og sé á gólfinu og allt í kringum mig gerviskartgripi, eftirlíkingar af demantinum, svona bling sem lítur ofsa vel út en eru ekki ekta. Ég tók þá upp og skoðaði og fannst þeir lokkandi en sá svo að þetta var ekki ekta. Ég fann hvaða dýrmæta gjöf ég hafði fengið.
Trúin er gjöf, Jesú Kristur, líf hans, dauði og upprisa er gjöf til mín og þín. Við þurfum að finna sannleikann í orðum hans. Viðurkenna að við höfum syndgað, iðrast og taka við honum. Biðja Guð að sýna þér sannleikann. Aðeins andi hans getur sannfært þig. Ekki mín orð eða annarra heldur getum við mannfólkið eingöngu sáð fræjum en Guð sér um vöxtinn. Guð er til og Jesú Kristur er sannur sonur hans. Faðirinn og sonurinn eru Eitt. Biblían er sönn. Því trúi ég af allri sálu minni.
Einhvern vegin varð minn vegur til Guðs svona áþreifanlegur en ekki þurfa allir sýnir og undur til að sannfærast. Jesú segir sjálfur. Blessaðir eru þeir sem sjá mig ekki en trúa samt.
Enginn getur sannfært þig um Guð nema hann sjálfur. Þú getur beðið hann að sýna þér sannleikann. Hann sjálfur vitnar um sig. Guð er handan okkar persónulega skoðana og trúar og gott er að leitast eftir æðruleysi og hugrekki að finna svörin þó þau geti umvarpað öllu sem þú trúir á.
Mundu að þú ert elskuð/elskaður og nú þegar er allt fyrirgefið er þú leitar hans. Hann hvítþvær þig af öllum syndum og færir þér eilíft líf. Það er nú þegar gert fyrir tilstuðli Jesú á krossinum.
Guð blessi þig.
Comments