Af hverju þurfti Jesús að deyja?
- Sólveig Katrín Jónsdóttir
- Mar 29, 2024
- 3 min read

Afhverju þurfti Jesú að deyja á krossi fyrir okkar syndir?
Lét Guð hann deyja og afhverju?
Frá falli mannsins í upphafi hefur syndin, hið illa og dauðinn verið fylgifiskur hér á jörðu. ,,Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni.” (Róm.5.12)
,,Enginn er réttlátur, ekki einn, enginn er vitur, enginn sem leitar Guðs.” (Róm 3.10)
En Guð hefur lofað okkur lausn og frelsara frá synd og dauða, loforð sem kom í gegnum orð Guðs með spámönnum hans og uppfylltist með komu og verkum Jesú Krists.
En leiðin þangað var löng og rekin er sagan í Gamla testamentinu hvernig lögmál Guðs var gefin mönnunum í gegnum Móse. Hvernig rétt breytni var gefin með boðorðunum og fólk hefur reynt að framfylgja þeim en enginn getur verið alveg án syndar. Enginn er syndlaus ekki einn
Eins og segir í Rómverjabréfinu,, Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá , án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.” (Róm.3.23-24).
Alvarleiki syndar
,,Því að laun syndarinnnar er dauði en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum. (Róm.6.23)
,, Meðan við enn vorum vanmegna dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega.” (Róm 5.6)
Hvað þurfum við að gera til að taka við náðargjöf Guðs.
,,Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum verður þú hólpinn. Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis. (Róm 10.9-11)
,,Því að hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn.” (Róm 10.13)
Guð faðirinn, sonurinn Jesú Kristur og heilagur andi eru Eitt. Guð dó fyrir okkar syndir, tók þær á sig í gegnum soninn Jesú Krist og Guð vakti hann til lífs á þriðja degi og sigraði þar bæði syndina, dauðann og hið illa.
Með blóði hans erum við hólpinn. Blóð lambsins hreinsar okkur af allri synd þegar við tökum við Jesú Krist sem frelsara okkar.
Fórnir gyðinganna sem sjást í Gamla Testamentinu var undanfarinn af því sem kom með verki Jesú á krossinum. Þau hreinsuðu sig af syndum með þeim verkum og gamla lögmálinu. Lambið hreina er svo Jesú Kristur sem tók á sig okkar sekt. Jesú uppfyllti gamla lögmálið og leysti þau verk og sagði,, Það er fullkomnað.” (Jóh.19.30) Því afleiðing syndar er dauði og eina sem borgar þá sekt er blóðfórn. Þess vegna þurfti Jesú Kristur að deyja á krossi fyrir okkar syndir.
Hann fór þangað sjálfviljugur enda segir hann við lærisveina sína.,Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður.” (Jóh 15.13). Jesú dó fyrir þig og mig, alla menn og leysti okkur undan valdi syndar og dauða. Hann fullkomnaði loforð Guðs um lausn og beindi okkur aftur í samband við Guð föður okkar. Engin ðnnur verk koma okkur í samband við Guð eða leysa okkar syndir. Það er aðeins verk Guðs á krossinum sem við öðlumst líf og frelsi.
,,Nú er því engin fyrirdæming búin þeim sem eru í Kristi Jesú. Því að lögmál þess anda sem lífið gefur í Kristi Jesú hefur frelsað mig frá lögmáli syndarinnar og dauðans. Það sem lögmálinu var ógerlegt,þar eð það var vanmegna gagnvart sjálfshyggju mannsins, það gerði Guð með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni og dæma syndina í manninum.” (Róm.8.1-3)
Comments