Að dvelja í nærveru Jesú Krists
- Sólveig Katrín Jónsdóttir
- Dec 15, 2024
- 7 min read

Að dvelja í Jesú Kristi- Vínviðurinn og greinarnar
Ég ætla að kafa aðeins í texta úr Jóhannesarguðspjalli sem lýsir því að vera í nærveru frelsarans og þá gjöf sem það gefur okkur í trúargöngu okkar. En Guðs orð er nærandi og hefur djúpa merkingu og við erum hvött að hugleiða Guðs orð daglega.
Textinn sem ég valdi er úr Jóhannesarguðspjalli 15. kafla versi 1.-6. sem er eftirfarandi, ,, Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert.“
Í þessum texta er Jesús að tala til lærisveina sinna sem hafa gengið með honum og lært af honum. Jesús notar dæmisögur og þarna notar hann sterka myndlíkingu um vínvið og greinar. Hann talar til þeirra úr umhverfi og myndum sem lærisveinarnir þekkja. Vínviður hefur oft verið vísun í Ísrael í Gamla testamentinu, en nú er hann að vísa í sjálfan sig. Vínviðurinn er Jesús og faðirinn er vínyrkinn. Lærisveinarnir eru sem greinar á honum og þeir sem dveljast í honum eru greinar sem bera ávöxt, ef þeir eru í honum. Í þessum kafla koma fram lokaræður Jesú til lærisveina sinna og er hann að undirbúa för sína úr þessum heimi. Jesús er að veita lærisveinum sínum hughreystingu og áminningu um að halda við orð sín og kennslu. Í 16. kafla segir Jesús að hann muni sendi heilagan anda sem verður hjá þeim, þrátt fyrir að hann fari til föðurins og í lok þessa kafla er vísað í að Jesús muni gefa lærisveinum sínum frið því hann hefur sigrað heiminn (Jóh.16.33)
Mér finnst Jóhannesarguðspjall vera andlegast af öllum guðspjöllunum, þar er áherslan á guðlegan eiginleika Jesú, sem er eitt með föðurnum. Mér finnst guðspjallið vera fallegt og ljóðrænt og margir textar góðir til að hugleiða orðið í trúarlegu samhengi. Spurningar sem vakna varðandi þetta textabrot er hvað felst í því að vera í Jesú Kristi, vera grein á honum og dveljast í honum? Textabrotið ,, verið í mér“ er á enska ,,abide“ og á gríska frummálinu ,, meno“ sem þýðir að dvelja í, eða vera í og lifa í. Einnig vekur það spurningar hvað það þýðir að vera grein sem ber ekki ávöxt og grein sem er kastað í burtu.
Hvað birtir textinn við fyrstu sýn? Vínviðurinn er Jesús Kristur, Guð faðir er vínyrkinn, Skaparinn, og við sem fylgjum honum erum sem greinar á Kristi. Fagnaðarerindið er orðið hans og kennsla, kærleiksboðskapur, frelsi og gjöf heilags anda ef við trúum og treystum á Jesú Krist. Það góða orð sem Jesú Kristur kennir okkur, gerir okkur hrein, hreinsar okkur af allri synd, sem vísar í mannlegan breyskleika og að missa marks eins og orðið synd (hamarsio) merkir. Orð Jesú eru leiðbeiningar fyrir gott líferni. Jesús segir að Guðsríki sé innra með okkur og er það er heilagur andi, og þannig getur hann verið í okkur og við í honum, í gegnum hann. Ávextirnir er það góða og fallega sem við birtum frá okkur í eiginleikum og verkum. Ef við fylgjum í fótspor Jesú Krist þá ber það mikinn ávöxt, því þá dveljum við í honum. Það sem er ekki í honum er kastað í burtu, en það er andstaða kærleikans, það sem við erum tilbúin að falla frá til að vaxa og þroskast enn meira.
Þetta textabrot er mjög myndrænt og falleg myndlíking. Við sjáum fyrir okkur vínvið, grænar sléttur á heitum gróskumiklum stað. Vínviðurinn gefur af sér ávexti, þrúgur fullar af vínberjaklösum í grænum og fjólubláum lit. Eins og segir í textanum þarf vínyrkinn að grisja og klippa í burtu lélegar greinar og visnar, til að þær beri enn meiri ávöxt. Það þarf að snyrta og sinna vínviðnum.
Myndmálið er djúpt og minnir á lífsins tré og sköpunarverkið. Tré lífsins þar sem er vöxtur og iðandi líf. Við erum sem greinar á lífsins tré, eða á Skaparanum. Við getum einnig séð lífið okkar sem garð, og okkar innra líf, anda, sál og huga. Þar getum við sáð og sinnt garðinum okkar og Guð sér um vöxtinn. Eins og þetta textabrot sýnir þá er það að dvelja í Kristi, gefur vöxt. Þannig þurfum við að treysta að það góða sæði sem er sáð muni bera ávöxt. Það sem er ekki að bera góðan ávöxt, eins og biturleiki, hatur, óvild, er eitthvað sem við þurfum að klippa og losa okkur við. Við viljum öll blómstra og vaxa eins og jurt á gresju eða grein á trénu. Að blómstra er að lifa, vaxa og dafna eins og jurtin og eins þráum við að sjá börnin okkar og ástvini. Öll getum við því fundið samhljóm í þessari sýn.
Í ofangreindum texta er Jesús að líkja sér við vínviðinn, hann er uppsprettan af lífinu, að dvelja í honum er að vera líkt og grein á vínviðnum. Hvernig erum við í Jesú? Samkvæmt orðum Jesú er hann ljós heimsins, brauð lífsins, lifandi vatn, orðið sem varð hold og einnig í 1.Jóhannesarbréfi, er sagt að Guð er kærleikur. Það að vera í Jesú Kristi er að vera í kærleika, ljósi, að vera í lífinu, uppsprettunni sem gaf okkur lífið og ef við erum í henni, er augljóst að frá þeirri uppsprettu verður vöxtur sem leiðir til ávaxta. Það er því góð mynd að sjá að ef Kristur er vínviðurinn, veitir hann mér alla hjálp til að vaxa, því allt líf því kemur frá rótinni, og lífsvökvinn færist um bolinn inn í greinarnar sem framvegis vaxa, einnig og að lokum gefa frá sér ávöxt. Ef Kristur er vínviðurinn er gott að vera grein á þeim vínviði. Jesús talar um að senda okkur hjálparann, heilaga anda, huggarann, sem verkar í þeim sem trúa, það gæti verið tilvísunin í að vera í Honum og hann í þér. Heilagi andinn er því hjálparinn sem er í okkur og leiðir okkur rétta veg til að vaxa. Ef greinin er þurr og ber ekki ávöxt, er hún sama sem líflaus og er klippt frá og gerir ekkert gagn. Við finnum það öll, ef við erum ekki í kærleika, erum við ekki í Kristi, ef við erum í biturleika, hatri, óvild, reiði, er það ekki grein sem ber ávöxt. Þannig sjáum við fyrir okkur þessar þurru líflausu greinar sem geta ekkert í eigin mætti. Við þurfum að vera í kærleikanum, í ljósinu, í lífinu til að láta gott af okkur leiða. Þannig gefur líf alltaf frá sér líf. Lífið er Kristur, lífið er kærleikurinn og kærleikurinn gefur af sér góða ávexti. Góðir ávextir eru margir og í Galatabréfi Páls nefnir hann þessa eftirfarandi;, ,, en ávextir andans er kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ (Gal.5.22-23).
Það að dvelja í orði Krists og taka við kennslu hans, er að taka við kennslu kærleikans, náungakærleika, von og samkennd sem birtir fegurð frelsarans, sem gefur þennan frið, gleði, allt ofan talið sem er fallegir eiginleikar sem við viljum vaxa til bæði fyrir okkur sjálf og náungann okkar.
En hvernig dveljum við í nærveru Krists? Hvernig nálgumst við kærleikann og friðinn hans? Að dvelja í nærveru Krists er eins og dæmisagan um Mörtu og Maríu, (Lúk. 10.38-42), að vera í núvitund, kyrrð og friði við fótskör frelsarans, að nema orðin hans, þannig að þetta samband við Krist geti átt sér stað. Gríska orðið meno merkir að lifa í, dvelja í, halda áfram að vera í nærveru hans. Það að vera umvafin honum. Þú ert grein á honum, það er mikil huggun að þurfa ekki að vera í eigin mætti heldur geta treyst Guði fyrir lífinu, ef við erum í honum, þá vöxum við. Við getum sleppt takinu hér og nú í hans nærveru og hann veitir sinn lífsvökva, kærleikann sem þarf til að vaxa. Orðið hans segir, ,,En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, Þá mun allt þetta veitast yður að auki“ (Matt.6.33). Hans ríki er kærleikur og ljósið, friðurinn sem hans nærvera færir. Það er ákveðin hvíld í því að vera grein á honum. Það felst traust í þeirri mynd, ég þarf ekki að reyna í eigin mætti að vaxa, ég þarf ekki að toga í aldinið til að hann beri ávöxt. Heldur get ég treyst Guði, fyrir minni andlegri vegferð ef ég sleppi tökunum og leyfi lífinu og uppsprettu lífsins að næra mig. Þá verður ákveðið áreynsluleysi sem gefur vöxtinn á réttum tíma. Ég þarf eingöngu að dvelja í kyrrð og friði í kærleiksverund frelsarans. Upp frá því munu ávextir spretta.
Það er einnig hægt að nýta þessar myndlíkingar úr 15. kafla Jóhannesarguðspjalls, til að skoða og hugleiða og spyrja spurninga hvað er og er ekki að vaxa í lífi einstaklingsins?
Í kyrrð og hugleiðingu í nærveru Krists biðjum við um aukið innsæi um hvað í lífi okkar, hjarta og huga er ekki að bera ávöxt. Þá er hægt að skoða greinarnar sem þarf að sníða af. Stundum þurfum við að horfast í augu við veruleikann og virkilega skoða hvað er að næra okkur í göngu lífsins og hvað ekki? Stundum þurfum við að treysta innsæi okkar og þá heilögum anda til að sýna okkur það og þegar við dveljumst í nærveru Krists, í ró, og kyrrð hjartans og friði í bænarþeli þá opnast oft augu okkar fyrir því sem þarf að klippa frá, bæði í eigin fari og/eða sambönd og annað sem er ekki að næra lífið. Þannig getum við tengt þessu dauðu greinar á lífsins tré, við það sem við þurfum að sleppa og fyrirgefa, til að raunverulegur vöxtur geti átt sér stað. En sú sýn kemur frá þessum rólega stað, núvitundar og kærleika sem er þegar við erum í nálægð Hans sem grein. Þá fær faðirinn að hreinsa huga okkar og endurnýja hugarfarið þegar við leyfum hans heilaga anda að verka í okkur.
Það að vera grein á Jesú Kristi er falleg sýn, tenging við kærleiksuppsprettuna og hið lífgefandi afl og öll getum við fundið samhljóm í þeirri mynd. Greinarnar sem eru ekki að gefa ávöxt er einnig sterk mynd í lífsins ólgusjó breytinga og vaxtar. Við þurfum að sleppa takinu og hreinsa til í lífi okkar. Það að gefa upp einhver gömul gildi og þungar byrðar og tilfinningar, er mikilvægt, hjálp við að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum og sleppa takinu. En það er myndin um greinarnar sem þarf að sníða af. Við þurfum öll að horfast í augu við breytingar þó okkur finnst erfitt að klippa á strengi sem eru ekki að bera góðan ávöxt, í lífi okkar. En það jákvæða er friðurinn, kærleikurinn og núvitundin í kyrrð og nærveru Jesú Krist, og að leitast eftir að dvelja í þessum friði í lífinu. Tilgangurinn er að hver einstaklingur finni, frið, kærleika, gleði og jafnvægi og að allir fái tækifæri að blómstra í lífinu, þannig að verði sífelldur vöxtur í lífinu eins táknræna myndin af trénu, greinunum og ávöxtunum bera með sér.
Megi Jesú Kristur færa sinn frið, kærleika og gleði inn í jólahátíðina og tendra sinn heilaga anda inn í hjarta hvers einstaklings.
Guðs friður ríki í sérhverju hjarta.
Sólveig Katrín Jónsdóttir
desember 2024
Comments