Sköpunarverk Guðs-Náttúran
- Sólveig Katrín Jónsdóttir
- Apr 3, 2022
- 2 min read

Við erum svo heppin á Íslandi að búa í þessari nálægð við ósnerta náttúruna, mikilfengleika hennar, lifandi náttúruöflin sem eru sem fingur Guðs, enn að skapa og móta hinu nýju jörð.
Lifandi kraftar Almættisins birtast okkur í þessari nálægð við sköpunarverkið. Við erum svo agnarsmá þegar við verðum vitni af stórbrotnu náttúrunni sem enginn mannlegur máttur kemst nálægt. Bæði þessi stórbrotna, magnþrungna náttúra og einnig það agnarsmáa, hvert einasta lifandi smáblóm, laufblað, töfrandi geometría sem sést þegar við leyfum okkur að verða vitni af fegurðinni. Vitni af kraftaverki sköpunarinnar. Fjölbreytileiki náttúrunnar hvort sem það eru villtu blómin, tæri fuglasöngurinn , grófu hraunmyndirnar, mjúka mosaábreiðan, hafið djúpa og hvert einasta sandkorn eru gjafir Guðs til okkar.
Þetta er sköpunin í sinni fegurstu mynd, hvert einasta fræ er búið að vera til frá upphafi sköpunar, hvert einasta fræ inniheldur sínu sérstöku birtingarmynd í kjarna sínum, tilbúið að koma frá á réttu augnabliki til að viðhalda sköpunarverkinu í gegnum aldir alda, frá upphafi þessarar jarðar til enda veraldar, til að birta fegurð sína Guði til dýrðar. Fjölbreytileiki sköpunarinnar í hverju einast fræi og lífseggi tegundanna.
Hendur skaparans bera vitni allstaðar. Við erum sköpuð í Guðs mynd og við erum einstakar sálir með einstakan kjarna sem eru sköpuð til lífs með lífsands Guðs og fáum að njóta samvistar í þessari fegurð. Við eigum að hugsa vel um jörðina sem okkur var gefin. Þessi yndislega náttúra sem færir okkur nær Skaparanum í nærveru sinni. Þessi yndislega náttúra sem er svo gjöful, og í lífsins rythma færir okkur allt sem við þörfnumst. Þannig var hún sköpuð, til að sjá fyrir allri sköpuninni. Það er séð fyrir liljum vallarins og það er séð fyrir fuglum himinsins og líkt er séð fyrir þér og þínum þörfum. Gnægð jarðar er okkur gefin til að njóta í þakklæti, jafnvægi og fegurð.
Við finnum þennan frið sem hún gefur, því allt er í samhljómi í náttúrunni, náttúran ber samhljóm Guðs í verund sinni. Þar finnum við tengsl við Skaparann, við tilgang okkar og fegurð.
Megi ganga þín í náttúrunni vera sem lifandi bæn til þín til Skaparans sem mótaði þig líkt og allt annað sem við sjáum þar. Brúum bil milli manns og náttúru og um leið milli manns og Guðs því hann vill mæta þér þar. Hann vill mæta þér í einlægni og auðmýkt hjartans og hvar sem þú ert staddur því þú ert líka einstakt sköpunarverk Guðs og hann er lifandi hlustandi Guð alltaf nálægur ef við bara opnum okkur fyrir Honum. Þú ert elskaður/ uð.
,, Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa.” sálmur 19.1
,,Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er, foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins fagni með þeim fyrir augliti Drottins því að hann kemur, hann kemur til að ríkja á jörðu,” sálmur 96.11-14
Kommentare