Hugleiðing um syndina
- Sólveig Katrín Jónsdóttir
- Feb 26, 2022
- 5 min read
Updated: Apr 3, 2022
Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum

Hvað finnst okkur um þetta orð og merkingu þess? Kannski hefur það verið svo misnotað í gegnum tíðina, notað til að skapa skömm, mismunun að það hefur algerlega verið sett til hliðar. Kannski veldur það óþægindatilfinningu, enda var kannski nýtt til að skapa ótta og beina fingrum að öðrum. Margir móðgast þegar það er notað og hugsa ég er góð manneskja, ég er ekki syndug. Ósköp eðlilegar hugsanir fyrir venjulegt fólk. En skoðum þetta betur erum við syndug? Hvað er synd?
Syndin er mikið uppá yfirborðinu núna þar sem skuggahliðar ofbeldis, kynferðismisnotkunar og fleiri mál eru komin mörg úr felum. Já manneskjan er misgóð, ekki allir eru með þessa hræðilega lesti en alltaf einhver prósent eru gerendur og augljóslega í syndinni. En svo erum við hin flest venjulegt fólk gott fólk að upplagi sem vill sýna samkennd, náungakærleika og vinsemd. Erum við syndug?
Já reynum að skoða þetta í kristnu samhengi og beina nýju kastljósi að syndinni. Því hún virkilega skiptir miklu máli og tengist mjög fagnaðaerindinu og komu Jesú Krists í heiminn.
Ef við förum alveg að upprunanum þá þurfum við að fara í upphafið í söguna um Adam og Evu og syndafallið. Í upphafi voru þau sköpuð í fullkominni einingu með Guði, gengu með Guði. Allt var gott en það voru reglur þar sem þau svo óhlýðnuðust þegar snákurinn/Satan tældi Evu að taka bita af ávexti skilningstrés góðs og ills. Það olli því að dauðinn og syndin kom í heiminn. Það að velja ekki samhljóm við Guð og að óhlýðnast vilja hans. Syndin olli aðskilnað við Guð og dauða. Þannig er heimurinn í dag við lifum í föllnum heimi, góðs og ills, við deyjum öll, við erum öll mannleg, enginn er fullkominn. Allir hafa syndgað, það er bara mannlegt eðli. Það gerir engan mann betri en hinn, við getum ekki notað það til að dæma aðra. Því hvað er mitt að dæma aðra manneskju? Jesú segir ,,sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum..”
Enginn manneskja fædd í þennan heim er syndlaus. Eini sem gengið hefur jörðina syndlaus er Jesú Kristur. Það var alltaf áætlun Guðs að beina okkur aftur til sín og gefa okkur eilíft líf og allt fagnaðarerindi Jesú Krists og Biblíunnar, talar um hvernig honum var ætlað að koma á jörðina sem friðþæging fyrir syndir okkar. Syndin leiðir til dauða, endalok alls, en Guð hafði annað plan.
Allar manneskjur eru fæddar með innri áttavita, samviskuna sem telur okkur trú um muninn á góðu og slæmu. Við vitum að við megum ekki meiða, drepa, stela, ljúga osfrv. Við flest finnum og skiljum það. Samkvæmt Biblíunni er lögmál Móse sem komu sem boðorðin 10 raunbirting á þessum innri skilyrðum sem við fæðumst öll með. Við þurfum ekki að lesa boðorðin 10 til að vita það. En fyrir fólkið var þetta spegill, lög á milli Guðs og manna. Enginn manneskja getur farið í gegnum lífið án þess að brjóta þessi lögmál á einhvern hátt. En það staðfestir í raun mannlegan breyskleika okkar að við erum jú öll syndug, mannleg, ófullkomin og það er bara staðreynd. En það sem við þurfum að gera er að viðurkenna þennan mannlega breyskleika. Við þurfum að horfast í augu við þennan skugga, syndina og iðrast þess og viðurkenna í auðmýkt að við höfum syndgað gagnvart heilögum Guð.
Góðu fréttirnar eru að Jesús fæddist í heiminn, sonur Guðs sem var sendur í heiminn til að frelsa heiminn. Jesú dó á krossinum fyrir mínar og þínar syndir, hann tók það allt á sig. Hann tók á sig syndir heimsins til að hver sem trúir á hann fái náðargjöf og eilíft líf. Síðustu orð hans eru ,,það er fullkomnað”. Það er nú þegar gert. Þú þarft ekki að vinna fyrir því annað en að taka á móti gjöfina í þessari gjörð þá umbreytir þú öllu innra með þér. Þú ert gerður réttlátur fyrir Guði, hvítþvegin af synd, og leitar eftir að lifa í réttlæti þrátt fyrir að mannlegt eðli og syndin yfirgefi þig ekki en þrátt fyrir að þú fallir niður þá stendur þú aftur upp og heldur áfram.
,,Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlátir þá án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi.” (Róm 3.23). Þetta er fyrirgefningin sem öllum er boðin, öllum sem leita Guðs. Það er eitthvað sem gerist í iðruninni og með því að horfa á þennan skugga sem við berum. Jesú talar um að með endurfæðingu í skírninni, þegar þú ákveður að fylgja Jesú sem fullorðin manneskja, þá deyrðu hinum gamla manni og endurfæðist til nýs lífs í Kristi. Allt er gert nýtt, og meira segja harðnaðir glæpamann tala um að fá nýtt hjarta úr holdi og blóði, umbreytingin er svo áþreifanleg. Guð hefur mátt til að breyta huga þínum, hjarta og endurnýja þig í samband við sig.
Á krossinum sigraði hann bæði hið illa, dauðann og afmáði syndir heimsins og þar kemur inn iðrunin og fyrirgefningin. Okkur er fyrirgefnar allar syndir okkar, allir breyskleika, allir skuggar ef við iðrumst þess og trúum á og tökum á móti Jesú Krist. ,,En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar. Í gegnum verk hans erum við laus við dauðann. Þetta eina líf er okkur gefið, og svo eilíðin með Kristi Jesú í Guðsríki.
Önnur trúarbrögð eins og Hinduismi (yoga) og Búddismi viðurkenna synd með orðum eins og karma, þú færð til baka það sem þú gerir rangt og hreinsar þannig illverk með því að gera gott. Karma og endurfæðing er samofin. Þú ert fastur í hjóli endurfæðinga vegna illra verka fortíðar. Í búddisma er jafnvel sú hugmynd að þú getur endurfæðst sem dýr eða stéttleysingi ef þú hefur gert eitthvað rangt. Þú færð það endurgoldið það sem þú hefur gert rangt og þá færðu kannski erfitt líf, veikindi, og ranglæti. Vegna endalausra mistaka þurfum við að vera föst í hjóli endurfæðinga þúsunda lífa til að slípa okkur til að verða betri manneskjur. Fólk sem á erfitt líf er kannski að borga til baka vegna karmalögmálsins. þessi hugmynd getur vakið þann skilning að þú eigir ekki að hjálpa náunganum, af því þú gætir verið að trufla karma einstaklingsins. Einnig getur þessi hugmynd ekki vakið mikla samkennd eins og t.d er litið á stéttleysinga í Indlandi. Það er horft fram hjá þeim því þeir hafa gert eitthvað rangt í síðasta lífi og eiga því skilið þessi örlög.
Hérna eru verkin mikilvægust, þú þarft að vinna þér inn frelsið á eigin vegum. Það er enginn sem frelsar þig nema þú sjálfur. Þú getur bara treyst á sjálfan þig, því í raun ertu Guð en bara búin að gleyma því.
Í taoisma er horft á ying/yang sameining ólíkra póla gott og illt og litið er á að við eigum að sameinast skuggahlið okkar til að finna einingu á ný. Þá umbreytum við hinu illa innra með okkur. Gerum það sjálf. Alheimurinn færir þér það sem þú átt skilið.
Þetta er athyglisvert að skoða. Skoða upphaf þessara hugmyndafræða. Pæla í því hvað maður trúir og afhverju.
Sjálfhverfan er því miður vaxandi í nútímanum. Fólk treystir einungis eigin verkum en ekki á almáttugan Guð. Guð er fjarlæg hugmynd, hann er ekki partur af lífi margra því miður. Fyrirgefning gleymist og fólk á það til að dæma hvort annað og beina spjótum sínum að hvort öðru. Fólk jafnvel telur sig hafa tekið við stall Guðs og vera sjálft Guð. Hvernig væri að sýna fullkomna auðmýkt og viðurkenna vanmátt sinn og falla þessum fölskum gildum. Guð hefur aldrei gleymt heiminum þó heimurinn gleymi honum. ,,Því að Guð svo elskaði heiminn að hann sendi son sinn í heiminn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur eigi eilíft líf. “
Ef Kristni er sönn, er orð Guðs er satt. Þá er málið einfalt, enginn getur með verkum einum komist til Guðs heldur með trú þar sem trúin færir þér fyrirgefningu synda þinna.
En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. En sá er samlagar sig Drottni er einn andi með honum. En sá sem elskar Guð er þekktur af honum. (Páll postuli).
Comments