Guð í erfiðleikunum
- Sólveig Katrín Jónsdóttir
- Nov 17, 2022
- 3 min read

Lífið er allskonar, það er ekki alltaf auðvelt ferðalag, því öll lendum við í raunum, upplifum sorg, missi, verðum fyrir veikindum, eigum erfiða daga og upplifum vonbrigði. Það er enginn sem kemst í gegnum lífið raunalaust.
En þá er mikilvægt að eiga samfélag hvort við annað og eiga trú og hafa von sem verður akkeri í stormviðrum lífsins. Við verðum stundum vanmáttug í aðstæðum sem hrjá okkur eða ástvini okkar. Það er lítið sem við getum gert til að breyta staðreyndum, áföllum, veikindum osfrv. En það er svo mikilvægt að vera til staðar, að geta gefið öxl til að gráta, eyru til að hlusta og hlýjan faðm vinar og ástvins. Við eigum hvort annað að og það er svo gott að geta gefið og þegið kærleika og hlýju frá ástvinum sínum. Það er gullið sem styrkir sambandið og gefur þennan fallega þráð sem hjálpar að líma saman brotin þegar erfiðleikar steðja að. Það er gjöf okkar hér á jörðinni að elska hvort annað eins og við elskum okkur sjálf.
En andlega gjöfin er nærvera Guðs og samfélag við hann. Hann sem birti sig í holdið og fann til eins og við og þekkir því sorg okkar og raunir. Hann gaf líf sitt á krossi fyrir alla menn og upplifði því hræðilegan sársauka. Hann hefur verið hér, og hann hefur aldrei yfirgefið okkur. Guð faðir okkar er lifandi Guð. Að hleypa honum inn er sú dýrmætasta gjöf sem þú getur þegið. Þá færðu huggarann sem Jesú kallaði, hinn heilaga anda sinn sem lifir í okkur. Hann er svo nálægur, hann býr í okkur og hann hjálpar, huggar, leiðbeinir og umvefur alla kærleika sinn.
Hann leiðir þig rétta braut að nýju, færir þér huggunarorð, vegvísir. Orð Guðs er lifandi og ótrúlegt hvað hin heilaga ritning getur hjálpað og komið með hughreystingu inn í aðstæður þínar.
Einnig er bænin svo mikilvæg. Bænin er samband okkar við Guð. Það er náið samband, hann heyrir bænir þínar og hann hlustar. Talaðu við hann eins og að tala við vin, syngdu til hans, gráttu til hans. Almáttugi faðir heyrir þig og þína bæn. En gefðu þér líka rými til að hlusta, vera kyrr og leyfa orðinu hans að tala til þín. Hinn heilaga anda sem víkur aldrei frá þér.
Guð er með þér í gleði þinni og sorg, vittu að þetta mun líða hjá og Hann mun endurreisa þig og raða brotunum saman á ný. Með hjálp Guðs ertu aldrei ein/n í þínum sársauka. Hann leiðir þig í gegnum dimma dali og finnur þér stað á nærandi grundum þar sem þú mátt næðis njóta. Þú verður eingöngu að hleypa honum að, gefa eftir til hans. Kasta byrðum þínum til hans. Jesú bauð okkur að láta allar okkar áhyggjur og kvíða til hans. Því ok hans er létt. Hann lyftir þessu fyrir þig og gefur þér styrk að takast á við erfiðleikana.
Í honum er friður ekki sem heimurinn gefur heldur himneskur friður.
Megi Guð blessa þig í gegnum allar lífsins upplifanir og færa þér frið.
,, Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda. Margar eru raunir réttláts manns en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum. “ (Sálmur 34.19-20)
Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. (Sálmur 23.4)
,,Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur.
(Jóh 14.27)
,,Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvild.” (Matt 11.26)
Comentários