Frá myrkri í ljósið
- Sólveig Katrín Jónsdóttir
- May 17, 2023
- 6 min read
Guð getur breytt lífi okkar á augabragði. Hann er sá sami í gær og í dag.
,,Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.” (Jóhannesarguðspjall 1.1) Orð Guðs er lifandi. Það hefur mátt til að umbreyta og sannfæra á augabragði. Guð hefur skráð sannleika sinn í gegnum heilaga ritningu með mætti heilags anda og hefur þannig skrásett sögu frelsarans. Þannig þekkjum við Jesú í dag. Guð opinberaði sig í gegnum son sinn Jesú Krist fyrir 2000 árum. Við fáum þekkt hann bæði þar sem í upphafi var verk hans skráð af þeim sem gengu með honum og tóku trú og skrásettu söguna. Guð er faðir sonur og heilagur andi. Guð er skaparinn, upphafið og endirinn. Jesú Kristur er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hann er ljós heimsins sem vitnaði um hið sanna ljós Guðs. Jesú vitnaði sjálfur um orðið sem var skráð á undan honum. En spádómar um Krist voru skráð fyrst af spámönnum Ísraels um 700 árum fyrir Krist. Orð Guðs er satt og vísar til sannleika Guðs.
Sumir lesa orðið, Biblíuna og sannfærast, og eignast trú. Sumir dreyma orð Guðs og hafa margir komist til trúar á þann hátt, margir múslimar t.d. Aðrir heyra orðið frá öðrum trúuðum og skynja sannleikann. Enn aðrir verða fyrir yfirskilvitlegri reynslu og fá orðið og sannleikann í vitrun eða sýn. En alltaf vitnar það um sannleika Guðs sem er skráð í Biblíuna. Ég varð fyrir þessari síðarnefndu reynslu. Enginn nema Guð sjálfur og heilagur andi getur sannfært mann. Það gerist með mætti heilags anda. Eftirfarandi er stutt lýsing á þeirri sýn og vitrun sem ég varð fyrir og á eftir hvernig þessi sannleikur sem opinberaðist mér er skráður í Biblíuna, orði Guðs. Þegar ég verð fyrir þessari vitrun fyrir ca. tveimur árum var ég var á allt annarri andlegri leið. Ég var búin að vera á andlegri braut sjamanisma, heiðni, jógafræða (hinduisma) nýaldar, guðspeki osfrv. Allt annað en að fylgja Kristi en ég taldi að allar leiðir liggja til Guðs. Ég var kennari á þessari leið og hafði viðað að mér andlegri speki í um 30 ár og var á leið uppljómunar og andlegrar vegferðar trúði ég. Ég nýtti mína sjamanísku leið til að fá sýnir, með trommuslætti og efla annars konar vitundarástand. Ég var með spurningu varðandi minn eigin skugga sem ég vildi skoða eða egó taldi ég það heita og er það þekkt skoðun í þessum andlegu fræðum að reyna að losna undan egóinu. Allt það neikvæða í fari fólks er klínt á svokallað ,,egó” en aldrei er talað um synd. Það er ekki til.
Í þessu vitundarástandi upplifði ég syndina í mér og þennan aðskilnað við heilagan almáttuga Guð. Ég upplifði það mjög sterkt að ég væri syndug og ekki bara ég heldur allir menn. Við erum öll syndug. Þetta var erfið upplifun og í þessari fjarlægð við Guð sá ég sýn hvernig ég og flestir eru að reyna að nálgast Guð og ég sá mig og fleiri eins og skugga sem voru að reyna að nálgast Guð og ég sé eins og veg til hans og á endanum himnadyr, eða gátt til Guðs þar sem óendanlega bjart ljós skein frá og ég sá mig og fleiri eins og skugga sem reyndu að nálgast dyrnar og komast inn, en komust ekki inn. Þá heyri ég sterka rödd segja,, Enginn kemur til Guðs nema í gegnum soninn” og þetta var svo sterkt að það var eins og að fá eldingu.
Þá sá ég Jesú Krist á krossinum, deyja á krossinum fyrir mína synd. Ég sá hvernig hann tók á sig syndir mannana og hreinsaði mig frá synd minni með fórnardauða sínum. Ég fékk að skilja djúpt í mínu hjarta hvernig hann dó fyrir mína synd. Í þessu öllu upplifði ég mikla iðrun og ég tók við náðargjöf Jesú, fyrirgefningu synda og eilíft líf með því að taka við honum og þessum sannleika Guðs. Ég fann fyrir náð Guðs og ljós hans skein svo bjart með kærleika sem er handan mannleg.
Þetta er gjöf Guðs til allra manna eina sem við þurfum er trú og að játa að Jesú Kristur er Drottinn og trúa því í anda og sannleika og iðrast synda okkar og taka við honum. Hann hvítþvær okkur af syndum okkar og það er nú þegar gert. Guð er almáttugur og hann er lifandi Guð. Hann er að starfa í heiminum í dag og vekur okkur til sannleikans. Á augabragði féll allt sem ég áður hafði trúað, fylgt, kennt og predikað.
Þú þarft engin rituöl til að losna við egóið, þú þarft ekki að reyna að ná í þinn heilagleika með verkum og hugleiðslu, þú þarft engin verk. Þú þarft ekki að fara þvo sál þína eða karma með endalausum endurholdgunum lífa. Það er allt blekking andaheimsins. Þú þarft bara að játa með munni þínum að Jesú er Drottinn og trúa því með hjarta þínu. Hann hefur sigrað syndina, dauðann og gefið þér eilíft líf með verki sínu á krossinum. Með því að taka við honum og þessum sannleika verður þú sett/ur frjáls. Það er nú þegar gert!
Hér koma ritningarversin sem styðja 100% allt sem ég upplifði í þessari sýn í orðum Biblíunnar. En þar stendur að heilagur andi mun vitna um soninn og það er guðsandi sem sannfærir menn að Kristur er Drottinn. Sannleiksandinn sem vitnar um soninn: Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. (Jóhannesarguðspjall 15.26) En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. (Jóh 16.13)
Um syndina: ,,Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinn í Kristi Jesú.” (Rómverjabréfið 3.23-24) Jesú segir,, Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.” (Jóhannesarguðspjall 8.7)
,,Ef við segjum:,, Við höfum ekki synd, "Þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur." (1.Jóhannesarbréf 1.8)
Um veginn til Guðs og dyrnar í Guðsríki: Jesús sagði við þá,, kostið kapps að komast inn um þröngu dyrnar því að margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta.” (Lúkasarguðspjall 13.24) Jesú segir. Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður sem liggur til glötunar og margir þeir sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur er liggur til lífsins og fáir þeir sem finna hann. (Matteusarguðspjall 7.13-15) Jesú segir,, Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. (Jóhannesarguðspjall 14.6) Jesús segir,, Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig mun frelsast og hann mun ganga inn og út og finna haga.” (Jóhannesarguðspjall 10.9)
Um náðargjöf Krist með krossfestingunni og upprisunni ,, Allir urðu sekir vegna afbrots eins. Svo verða allir sýknir og öðlast líf sakir þess fullkomna verks sem einn vann. Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina. “ (Rómverjabréfið 5.18-19) Meðan við enn vorum vanmegna dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. Varla gengur nokkur í dauðann fyrir réttlátann mann.. En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar. (Rómverjabréfið 5.6-8) ,,Við vitum að okkar gamli maður dó með honum á krossi til þess að líkami syndarinnar yrði að engu og við værum aldrei framar þrælar syndarinnar. Dauður maður er leystur frá syndinni. (Rómverjabréfið 6.6) ,,Nú er því engin fyrirdæming búin þeim sem eru í Kristi Jesú. Því að lögmál þess anda sem lífið gefur í Kristi Jesú hefur frelsað mig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.” (Rómverjabréfið 8.1-2) ,, Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig. Ég ónýti ekki náð Guðs. Ef réttlæting fæst fyrir lögmál þá hefur Kristur dáið til einskis. “ (Bréf Páls til Galatamanna 2.19-20) ,,Nú eruð þið leyst frá syndinni og bundin réttlætinu. Það ber ávöxt til helgunar og eilífs lífs að lokum “ (Rómverjabréfið 6.22)
Fagnaðarerindi Guðs er því stuttu máli; Því svo elskaði Guð heiminn að hann sendi son sinn eingetinn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Við erum öll syndug og gerum mistök og erum því aðskilin Guði. Allir hafa brotið lögmál Guðs með einum eða fleiri hætti. Það er tómarúm í hverju hjarta sem Guð einn getur fyllt. Enginn nema Guð er heilagur og þessvegna er hann einn sem getur frelsað okkur og tekið burt skuggann okkar, og læknað okkur að fullu og það er með verki Jesú á krossinum. Hann dó fyrir þínar og mínar syndir og beinir brautina okkar til Guðs, sem fyrirgefur okkur og gefur okkur náðargjöf ef við trúum og tökum við Jesú Kristi. Guð sendi son sinn til að deyja fyrir syndir okkar og leysa okkur undan sekt hennar. Hann reis upp frá dauðum og gaf okkur eilíft líf í syni sínum Jesú Kristi. Við eigum eitt líf hér á jörð og það er okkar val að velja að koma til Hans. ,, Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta” (Jeremína 29.13).
Guð elskar þig og þráir persónulegt samband við þig, hann stendur við dyrnar og bankar. Ertu tilbúin/n að opna dyrnar?
Comments