top of page

Fagnaðarerindið

  • Writer: Sólveig Katrín Jónsdóttir
    Sólveig Katrín Jónsdóttir
  • Jun 27, 2022
  • 4 min read




Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki son sinn í heiminn til að dæma heiminn heldur til að frelsa hann. (Jóh. 3.16)


Jesú læknar, huggar og gerir það heilt sem áður var brotið eða týnt. Hann kom í heiminn til að færa okkur gjöf, frelsi, endurlausn og eilíft líf. Hann kom til að endurheimta upprunalegu sköpun Guðs, færa okkur í réttan farveg aftur til Guðs. Hann varð maður og á sama tíma Guð sem gekk hér á jörð til að nálgast okkur.

.

Hann kom ekki til að færa okkur hulda þekkingu heldur til að við getum þekkt Guð okkar í gegnum hans verk og starf. Hann er Guð (Guð faðir, sonur og heilagur andi eru eitt) þannig getur hann fyrirgefið syndir okkar og læknað okkur. En stærsta gjöfin er fórn hans á krossinum þar sem hann dó fyrir syndir okkar. Hann tók á sig synd heimsins, alla synd, allra manna í fortíð, nútíð og framtíð til að endurleysa okkur. Þessi gjöf stendur okkur öllum til boða að leysa út en það er undir okkur komið hvort við þiggjum þessa gjöf eða ekki.


Já við erum öll jöfn sem manneskjur, og þar sem við búum í föllnum heimi erum við öll syndug, það er mennskan okkar og fallvaltleiki. Við höfum öll brotið reglur Guðs. Syndin er ekki egóið okkar. Við þurfum ekki að losna við hugann okkar sem Guð skapaði. En Guð sannarlega endurnýjar huga þinn þegar þú tekur við gjöf hans. Það eina sem við þurfum að hreinsa til að geta staðið í nálægð heilags Guðs, í ríki hans, er syndin. Því afleiðing syndar er dauði. Í heilagri ritningu stendur að ,,allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlaus sinni í Kristi Jesú. (Róm 3.24). Jesús er sá eini sem var syndlaus, því hann er sonur Guðs. Guð faðir, Almættið er oft lýst sem skínandi eldi, engin manneskja gæti komið nálægt heilagleika Guðs því þá myndi hún brenna upp. Við þurfum ekki að reyna að frelsast á eigin mætti eða í gegnum dulda þekkingu eða vigslur. Við þurfum bara að taka á móti náðargjöf Guðs, Jesú Krist.


Jesú dó á krossinum fyrir syndir okkar og sigraði bæði hið illa og dauðann. Hann reis upp á þriðja degi. Hann skapaði veg til eilífs lífs, afmáði afleiðingu syndar, dauðann.


,,En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.” (Róm 5.8). Jesú borgaði sekt okkar. Það er gert. Það er fullkomnað eins og hann sagði sjálfur í lokaorðum sinum á krossinum.


Góðu fréttirnar eru að í gegnum hans gjörð erum við gerð frjáls og hvítþvegin af synd. Eina sem við þurfum að gera er að játa syndirnar og virkilega iðrast þeirra og Guð fyrirgefur okkur. Þá tökum við við Jesú og krossinum í líf okkar, deyjum hinum gamla manni og hinu gamla fari og endurnýjumst í anda. Við erum hvítþvegin af syndum okkar og rísum upp í nýtt líf. Við endurfæðumst í anda og sál og eigum persónulegt samband við Guð í þessu lífi og hann gefur okkur eilíft líf í ríki sínu eftir þetta líf.


Eftir að við tökum við Jesú verðum við fylgjendur hans og lærisveinar/meyjur, synir og dætur Guðs, deyjum sjálfshyggjunni og reynum að fremsta megni að birta vilja Guðs í okkar lífi og starfi. Sleppum tökunum á eigin vilja og að gera allt í eigin mætti heldur reynum að leyfa honum að taka við stjórninni. Að leyfa Guði og vilja hans að gefa áxöxt. Við tökum við heilögum anda Guðs, sem hann sendir sem styður okkur og hjálpar. Auðvitað erum við mannleg og allir geta farið af sporinu og syndgað en ef þú hrasar þá iðrast þú og stígur aftur upp og gengur áfram leiðina. En þú ert aldrei einn. Guð leiðir þig og styrkir. Guð einn getur breytt hjörtu mannanna. Hann vill þetta persónulega samband við sig. Hann kallar á þig og bíður eftir öllum týndum sauðum sínum með opnum örmum. Hann vill bara að þú veljir Hann. Hvernig væri kærleikurinn öðruvísi ef það væri ekki fyrir frjálsan vilja. Við höfum frjálsa vilja að taka við hjarta hans og gefast honum einum.


Nálgaðu þig Guði og þá nálgast hann þig. Bankið og yður mun upplokið verða. Það er svo einfalt. Guð elskar þig og bíður eftir að þú veljir hann af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllu hjarta þínu.


Hér eru orð úr heilögu ritningu um endurfæðinguna.


Staðfesting á að taka við þessari gjöf Jesú er að skírast eins og Jesú segir ,, sannlega sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki nema hann fæðist að nýju.” (Jóh.3.5)


Sannlega, sannlega segi ég þér enginn getur komið inn í Guðs ríki nema hann fæðist að vatni og anda. Það sem fæðist af manni er manns barn en það sem fæðist af anda Guðs er Guðs barn. Undrast eigi að ég segi við þig. Ykkur ber að fæðast að nýju. (Jóh.3.5-7)


,,Pétur sagði við þá, Takið sinnaskiptum og látið skírast í nafni Jesú Krists svo að þið öðlist fyrirgefningu syndanna og gjöf heilags anda.” (Post.2.38)


Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til. (2 kor.5.17)


Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. (Esekíel 36.26)


Ef Kristur er í ykkur er líkaminn að sönnu dauður því að syndin er dauð en andinn er líf sakir sýknunnar Guðs. Ef andi hans sem vakti Jesú frá dauðum býr i ykkur þá mun hann sem vakti Krist frá dauðum einnig lífga dauðlega líkami ykkar með anda sínum sem í ykkur býr.

(Róm. 8.11)


,,Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.” (Róm 12.2)


 
 
 

Comments


Um Líf í Kristi

Mig langar að leyfa þessari síðu að vera Guði til dýrðar, beina sjónum að fagnaðarboðskap Jesú. Hjálpa fólki að öðlast trú sem færir von, gleði, fegurð og kyrrð í hjarta. Megi orðin og boðskapur á þessari síðu rata í frjósaman jarðveg til vaxtar og þroska.

#lifikristi

Posts Archive

Keep Your Friends
Close & My Posts Closer.

Thanks for submitting!

  • Twitter
  • Facebook
  • Instagram

© 2023 by by Leap of Faith. Proudly created with Wix.com

bottom of page